Home

Njótið stórfenglegrar náttúru Snæfellsness í fylgd með fjölskyldunni á Stóra-Kambi!

Hestaferðir í fögru umhverfi

Hestaleigan á Stóra–Kambi býður upp á stuttar hestaferðir (1 og 2 klst.). Lagt er upp frá Stóra–Kambi og riðið meðfram gullinni strandlengju undir Snæfellsjökli, á Hraunlandarifi, á milli Búða og Arnarstapa, þar sem útsýni er mikið og fagurt. Við bjóðum gestum okkar að njóta hinnar fallegu og friðsælu náttúru sem er að finna utan alfaraleiðar á Snæfellsnesi, upplifa nálægðina við hafið og kynngimagnaðan kraftinn frá jöklinum. Þetta svæði er án efa ein af fegurstu reiðleiðum á landinu. 

Lagt er af stað í klukkustundar ferðirnar kl. 10, 12, 14 og 16. Tveggja tíma ferðirnar eru í boði þegar það er háfjara innan opnunartímans, vinsamlega hafið samband við okkur fyrir frekari upplýsingar.Við áskiljum okkur þó rétt til að hætta við ferð ef veðuraðstæður eru ekki hentugar fyrir hesta og  menn.

Lágmarksaldur í ferðirnar er 7 ár en við bjóðum yngstu börnunum að teyma undir þeim í um 20 mínútur heima við.

Enginn lágmarksfjöldi er í ferð en við mælum með því að allar ferðir séu bókaðar fyrirfram, svo hægt sé að tryggja öllum hesta við hæfi.

Hvað er útvegað?

Við útvegum hjálma, hlífðarfatnað (regn-/vindgalla) og stígvél.

Hvað þarf að hafa með?

Best er að vera í þægilegum og hlýjum fatnaði sem er ekki sleipur og skrjáfar ekki mikið í.

Hestaferðirnar eru í boði frá 1.maí til 31.október.

Viltu vita meira?

Eða viltu bóka hestaferð? Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 852 7028.

Víkingaferðir

Við bjóðum gestum í víkingasöguferð þar sem sagnamaður fer með og segir frá með gleði og innlifun söguna af Birni Breiðvíkingakappa.

Björn Breiðvíkingakappi bjó á Kambi og er talinn hafa verið einn af fyrstu Evrópubúum til þess að nema land í Norður-Ameríku. Í heildina er ferðin u.þ.b. 2-3 tímar þar sem blandað er saman reiðtúr, sögunni af Birni Breiðvíkingakappa og matarsmakki í tíðaranda víkingatímabilsins.

Í boði eru einnig aðrar tveggja klukkustunda ferðir fyrir þá sem hafa meiri reynslu af hestum og aðrar sérsniðnar ferðir fyrir hópa og einstaklinga.

Víkingaferðir eru í boði frá 15. júní til 15.ágúst.

 

Viltu vita meira? Eða viltu panta víkingaferð eða sérsniðna ferð?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst info@storikambur.is eða hringdu í síma 852 7028.

Við bjóðum þér að gista

Við bjóðum notalega gistingu í sumarhúsunum okkar. Húsin hafa eitt rými þar sem stofa, svefnherbergi og eldhús er allt saman og auk þess er sér baðherbergi með sturtu. Gistiaðstaðan rúmar tvo til fjóra. Gestir sjá sér sjálfir fyrir mat. Útsýnið er stórkostlegt og kyrrðin engu lík!

Viltu vita meira?

Eða viltu panta gistingu? Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 852 7028.

Um okkur og umhverfið

Fjölskyldurekin ferðaþjónusta

Hestaleigan á Stóra–Kambi er fjölskyldufyrirtæki, þar sem við hjónin Eygló Kristjánsdóttir og Hjörtur Sigurðsson, og börnin okkar vinnum  saman að því að veita gestum okkar ógleymanlega og persónulega upplifun af náttúru og sögu Snæfellsness og kynna þeim töfra íslenska hestsins. Við höfum átt hesta í fjölda ára og okkur þykir mjög vænt um hestana okkar, sem margir hverjir hafa fylgt okkur alla sína ævi.

Bærinn stendur utarlega á Snæfellsnesi sunnanverðu, í aðeins um 7 mínútna akstursfjarlægð frá Búðum og Arnarstapa. Til Reykjavíkur er rúmlega tveggja klukkustunda akstur og í Borgarnes rúmlega klukkutími. Það tekur rétt um 25 mínútur að aka í Ólafsvík, rúman hálftíma í Grundarfjörð og tæpan klukkutíma í Stykkishólm.

Hestarnir

Við leggjum áherslu á að hestarnir okkar hafi gott geðslag með sem mestum fjölbreytileika. Gestir okkar koma jú hingað með allskonar reynslu; allt frá því að hafa aldrei farið á hestbak og upp í að vera mjög vanir reiðmenn. Okkur þykir einnig gaman að eiga hesta í mörgum mismunandi litum. Við kappkostum að velja hesta við hæfi hvers og eins reiðmanns. Við eigum hesta við flestra hæfi, fyrir vana jafnt sem óvana reiðmenn. Okkur þykir mjög vænt um hestana okkar og þess vegna vinna þeir enga yfirvinnu. Hver og einn hestur fer aðeins eina ferð á dag að hámarki 1-2 klst og fær frí með reglulegu millibili. 

Allur innflutningur á hrossum er bannaður á Íslandi. Vegna einangrunar Íslands og innflutningsbannsins hefur íslenski hesturinn sloppið við flesta sjúkdóma sem hrjáð geta hesta í öðrum löndum. Innflutningur á notuðum reiðtygjum, reiðfatnaði eða öðru sem notað er í kringum hross er stranglega bannaður, nema búið sé að sótthreinsa það að fullu í samræmi við lög og reglur. Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.

Okkur er annt um hestana okkar – og allan íslenska hrossastofninn – hjálpið okkur að halda hestunum áfram heilbrigðum og virðið reglurnar um sótthreinsun á reiðtygjum og reiðfatnaði.

Nærumhverfið

Snæfellsnes er um 90 km langt nes á Vesturlandi, prýtt háum og á köflum hrikalegum fjallgarði, sem mótast hefur við eldgos og jökulrof. Landslagið er fjölbreytt og töfrandi. Yst á fjallgarðinum trónir hinn dulmagnaði Snæfellsjökull og umhverfis hann er yngsti þjóðgarður landsins, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Á Snæfellsnesi má finna ölkeldur, hvítar strendur, lífleg fuglabjörg, skemmtileg þorp og bæi. Brim og eyjar, einstakar gönguleiðir og fjölbreytt afþreying gerir ferð á Snæfellsnes sannarlega að ævintýri.

 

Viltu vita meira? 

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 852 7028. 

Akstursleiðbeiningar

Frá Reykjavík er ekið eftir hringveginum, þjóðvegi nr. 1, í átt að Borgarnesi. Þegar komið er út úr Borgarnesi er beygt til vinstri út úr hringtorgi á Snæfellsnesveg (nr. 54) og ekið eftir honum 99 km. Þá er beygt til vinstri inn á Útnesveg (nr. 574) þar til komið er heim að Stóra–Kambi. Frá Reykjavík eru 185 km að Stóra–Kambi og frá Borgarnesi 111 km.

Sé komið úr hinni áttinni, frá Stykkishólmi, er fyrst ekið eftir Stykkishólmsvegi (nr. 58) út úr bænum, þá beygt til hægri á Snæfellsnesveg (nr. 54) og síðan til vinstri inn á Vatnaleið (nr. 56). Af Vatnaleiðarvegi er síðan beygt til hægri á Snæfellsnesveg (nr. 54) og loks inn á Útnesveg (nr. 574) þar til komið er að Stóra–Kambi. Frá Stykkishólmi eru 79 km að Stóra–Kambi.

Frá Grundarfirði er ekið til hægri út úr bænum (í átt að Ólafsvík) eftir Snæfellsnesvegi (nr. 54), yfir Fróðárheiði og loks beygt til hægri á Útnesveg (nr. 574) þar til komið er að Stóra–Kambi. Frá Grundarfirði eru 44 km að Stóra–Kambi.

Frá Ólafsvík er ekið til vinstri út úr bænum (í átt að Stykkishólmi) eftir Útnesvegi (nr. 574), síðan beygt til hægri inn á Snæfellsnesveg (nr. 54), ekið yfir Fróðárheiði og loks beygt til hægri á Útnesveg (nr. 574) þar til komið er að Stóra–Kambi. Frá Ólafsvík eru 29 km að Stóra–Kambi.

 

Nánari upplýsingar

Viltu vita meira? Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 852 7028.

N64°49’15” - W023°33’21” Að Stóra–Kambi er rétt rúmlega tveggja klukkustunda akstur frá Reykjavík og rúmur klukkutími frá Borgarnesi.

Verið velkomin – við hlökkum til að sjá ykkur!

Eygló og Hjörtur, bændur á Stóra–Kambi